Um notkun og efni heimasíðunnar
Rafkverið var upphaflega ritað til stuðnings og leiðbeiningar fyrir læknanema og aðstoðarlækna, sem koma til náms eða starfa á SAK; aðrar heilbrigðisstarfsstéttir geta þó væntanlega einnig haft nokkurt gagn af lestrinum, sérstaklega sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar. Aðaltilgangurinn er sá að þeir sem á þurfa að halda fræðslu eða upplýsingum um sjúkdóma í þvagfærum, geti opnað kverið hvenær sem er á rafrænu formi og frekar leyst vandamál þau er þeir glíma við í hinu daglega starfi. Fjallað er um ýmsa góðkynja þvagfærasjúkdóma, sem til greiningar og meðferðar koma, en einnig er umfjöllun helguð illkynja þvagfærasjúkdóma. Sums staðar er efnið á tveimur aðskildum stöðum til einföldunar.
Ætlunin er ekki að skilgreina alla sjúkdóma eða lýsa, heldur fyrst og fremst að gera grein fyrir mögulegum greiningaraðferðum og meðferð, en einkennum og almennum þáttum þar sem þurfa þykir og einfaldað geta efnið. Allt er þó breytingum háð og svo mun með kverið verða. Kverinu er því fyrst og fremst ætlað að vera greiningar- og meðferðartól.
Klínísk skoðun og sjúkrasaga eru áfram lykilatriði við greiningu sjúkdóma. Aðrar greiningaraðferðir eru nefndar til leiðsagnar og mikilvægt að velja þær sem gagnlegastar eru í það skiptið. Tekið skal fram að í mörgum tilfellum getur verið stigsmunur á úrræðum þeim sem beitt er hverju sinni og gildir jafnt um greiningu og meðferð. Sérlyfjaheitum, lyfjaskömmtum og meðferðarlengd er gert mishátt undir höfði, en almennar ráðleggingar gefnar þar sem það á við.
Rétt þykir að benda á aðferðir veiðibjöllunnar við fæðuöflun; sífellt með augun opin leitandi að æti. Hið sama þarf hinn ungi læknir að gera hvað varðar greiningu sjúkdóma, nota öll skynfæri til hjálpar, en muna að ekki þarf að meðhöndla alla skapaða hluti, þótt á fest hafi auga eða hönd.