Þvagleki (urinary incontinence)
Almennt: þvagleki getur verið einkenni (kvörtun sjúklings/aðstandanda), teikn (sýnt fram á leka) eða ástand (lífeðlismeinafræðilegur grunnur).
Klínískar leiðbeiningar um meðhöndlun þvagleka í heilsugæslu má nálgast hér.
Skilgreining: sýnilegur og ósjálfráður missir þvags, sem veldur hreinlætis- og félagsvanda hjá sjúklingi eða þeim er hann annast. Algengi eykst með aldri (40-80% kvenna á stofnunum) og tvisar sinnum algengara hjá konum en körlum, 20-40% kvenna >60 ára er búa heima hafa þvagleka. Orsakir mismunandi eftir aldri en ýmist meðfæddir eða áunnir sjúkd., ástand eftir skurðaðgerðir, fistlar (sjá kafla 21) ásamt öldrun. Líta verður á grindarbotninn sem eitt líffæri, náin tengsl líffæra innbyrðis og út frá taugastjórnun, vöðva- og slímhúðarástandi.
Klínísk flokkun þvagleka
Áreynsluþvagleki (stress incontinence): lekur við alla áreynslu er eykur kviðarholsþrýsting (þrýstingur í blöðru > þvagrás).
Sprengþvagleki (bráðaþvagleki, urgency incontinence): ósjálfráður þvagmissir í tengslum við skyndilega þvagþörf (bráða- eða sprengmigutilfinningu).
Yfirflæðisþvagleki (overflow incontinence, ischuria paradoxa): lekur sökum langvinnrar yfirþenslu/lömunar á blöðru (samfara þvagtregðu/-teppu).
Blandaður þvagleki (mixed incontinence): ≥ 2 gerðir þvagleka að ofan.
Einkenni/klínískt mat
Saga: þvagblaðran er óáreiðanlegt vitni, einkenni eru ekki sjúkdómssértæk, bráður vandi eða ekki, tegund lekans að nóttu og/eða degi, breytingar á líkamsþyngd, verkir yfir blöðrustað, færni, lyf, skurðaðgerðir (legnám, hvekkaðgerðir, grindarhols/-botnsaðgerðir), aðrir sjúkdómar, kynlíf, fæðingar, hreyfigeta, hægðavandi, vitglöp.
Skoðun: líkamsbygging, göngulag, taugakerfisskoðun (SII-IV), Valsalva, útiloka fistla.
Konur: sig á grindarbotnslíffærum, blöðru og/eða legsig (gráða I-IV), sig á aftari skeiðarvegg (gráða I-III, rectocele), garnahaull (enterocele, vaginal vault prolapse), ofurhreyfing þvagrásar, lekur við stöðu eða liggjandi, slímhúðir.
Blöðrusig (vi. m.) og sig á ftari skeiðarvegg (hæ. m.).
Karlar: þvagrásarop, hvekkur, ytri kynfæri, þreifanleg blaðra.
Rannsóknir
Grunnrannsóknir: þvagsýni, þvaglátaskrá, þvagleif.
Valrannsóknir: mikilvægi ræðst af niðurstöðu skoðunar, sögu og grunnrannsókna eða ef klínískt mat gefur ekki nægilegar upplýsingar t. a. ráðleggja sjúklingi í upphafi, sjúklingur áður undirgengist skurðaðgerðir, grunur um taugarænan kvilla, yfirflæðisleka ellegar aðgerð fyrirhuguð.
Flæðismæling
Blóðsýni: blóðhagur, Na, K, (Ca), kreatínín, sykur, PSA.
Þvagrásar- og blöðruspeglun
Þrýstingsmæling á þvagblöðru (cystometria): mögulegt að mæla þrýsting innan þvagblöðru, í þvagrás (UPP) og endaþarmi, EMG, ferlimælingar á neðri þvagfærum (ambulatory urodynamics, rannsóknir í daglegu lífi), lekaþrýstingur (leak-point pressure), þrýstingsflæðimæling, myndbandslekarannsókn (videoCUG, getur flokkað áreynsluleka nákvæmlega í gerð 0, I-III). Helstu niðurstöður geta gefið til kynna eftirfarandi:
Óstöðugur blöðruvöðvi (detrusor/bladder instability, unstable bladder): ósjálfráðir blöðrusamdrættir án undirliggjandi taugasjúkdóms. Orsakir t. d. blöðrusteinar, flæðishindrun, sýking, æxlisvöxtur, en oftast óþekktar.
Ofurviðbrögð blöðruvöðva (detrusor hyperreflexia): ósjáfráðir blöðrusamdrættir sökum taugasjúkdóms. Annaðhvort s. k. mænuþvagblaðra (“suprasacral”, reflex/spinal blaðra, dæmi: MS, mænuáverkar) eða ofanmænuþvagblaðra (“supraspinal” blaðra, dæmi: heilablóðfall, Parkinson sjúkd., heilaæxli, MS).
Óeðlilegt blöðruþan (abnormal bladder compliance): óeðlilegt samband rúmmáls og þrýstingsaukningar í þvagblöðru. Orsakir geta hvort heldur sem er verið taugarænar (sykursýki, MS, brjósklos) og ekki (bólgur, geislun, þvagleggur).
Lokuvöðvavanhæfni (ISD, intrinsic sphincter deficiency, sphincter incompetence/failure, type III urinary incontinence): innri vanhæfni lokuvöðvans. Slys, áverkar eftir aðgerðir og taugasjúkdómar helstu orsakir.
Myndgreining: einungis í undantekningartilfellum og þá eftir skoðun sérfræðings. Ómun, skuggaefnisrannsókn á þvagblöðru (cystografía), nýrnamynd, TS, segulómun af mænu/hrygg og eða grindarbotnslíffærum.