Blóð í þvagi er oftast nefnd blóðmiga meðal fagfólks en þá er átt við að blóðlitur sjáist í þvaginu. Stundum getur blóðið verið ósýnilegt berum augum og aðeins sést við sérstök þvagpróf eða rannsóknir.
Ýmsar ástæður eru fyrir blóðmigu, en algengastar eru:
sýkingar
steinar í þvagfærum
áverkar
lyf
blöðruhálskirtilsstækkun
nýrnasjúkdómar
Krabbamein í þvagblöðru, nýrum eða blöðruhálskirtli geta valdið blóðmigu. Oft er blóðmigan eina einkennið um einhvern tiltekinn sjúkdóm og líkur aukast með auknum aldri sjúklinga.
Það er ætíð ástæða til að hafa samband við lækni vegna blóðs í þvagi, sem aftur krefst fullnægjandi rannsókna, en þær eru misjafnar með tilliti til aldurs og sjúkrasögu. Eins og oftast nær, þá er mikilvægast að útiloka krabbamein og því fyrr sem þau greinast, þeim mun betri verða horfurnar almennt talað.