Meðferð

Val meðferðar ræðst af m. a. fylgikvillum, batahorfum, einkennum, fyrri meðferð, áhættuþáttum, aldri, búsetu, kostnaði, óskum sjúklings og horfum án meðferðar. Stækkun á hvekk ein sér, án eiginlegra einkenna, gefur yfirleitt ekki tilefni til meðferðar.

Ráðleggingar: breyta venjum og lífsstíl, minnka drykkju eftir kvöldmat (kaffi, koffíndrykkir, bjór, áfengi, gosdrykkir), breyta annarri lyfjanotkun.

Lyfjameðferð: (a) Alfahemjarar, (b) lyf sem minnka rúmmál og draga úr vexti hvekks (dregur úr þéttni tvíhýdrótestósteróns (DHT) í blóðinu með því að hamla 5-alfa-afoxunarmiðlaísóensímum, fínasteríð, dútasteríð), (c) blöðruhemjandi lyf (and-múskarín eða and-kólínerg lyf, krampalosandi verkun, mirabegron sem er beta-3-adrenergic-receptor agonist), (d) lyf sem auka samdráttarhæfni blöðru, (e) desmópressín, hormón er örvar endurupptöku vatns í nýrum og dregur því úr þvagmyndun og losun sérstaklega að næturlagi (dæmi: Minirin). Samsett lyf (Duodart) sem inniheldur bæði alfa-hemjara og hvekkminnkandi lyf (tamsúlósín og dútasteríð).
Náttúrulyf, skottulækningar (herbal medicine, homeopathy, phytotherapy, complementary medicine): mikið notuð erlendis, en lítil hefð hér á landi ennþá. Ekki verið sýnt fram á notagildi í langtímarannsóknum, en þó hefur Serenoa repens (Permixon, “Freyspálmi”) haft áhrif á sjúkdómseinkenni og þvagflæði. SagaPro ekki rannsakað í samanburði við lyfleysu og eða þvagfæralyf, en ekki hættulegt skv. stakri rannsókn.

Skurðaðgerð

Úrnámshefill til aðgerða um þvagrás (transurethral resectoscope)

Mögulegar ábendingar fyrir skurðaðgerð: viðvarandi eða endurtekin þvagteppa, endurteknar og alvarlegar sýkingar, endurtekin eða viðvarandi blóðmiga, nýrnabilun vegna þvagteppu eða lélegrar tæmingar, lyfjaóþol, lyfjafrábendingar, sjúklingur vill ekki lyf, einkenni lagast ekki á annarri meðferð eða við gefnar ráðleggingar.

Hvekkúrnám um þvagrás (TURP, Transurethral Resection of Prostate). Nýrri aðferðir eins og t.d. tvískauta aðgerð (bipolar TURP) þar sem ekki er hætta á TUR heilkenni.


Vefjaaukinn fjarlægður.

Blöðruhálsskurður um þvagrás (TUIP, TransUrethral Incision of Prostate, BNI, Bladder Neck Incision): Blöðruhálsskurður notaður við blöðruhálsþrengslum og ef hvekkur er lítill (<25-30g), en stundum samfara hefðbundnu hvekkúrnámi.



Skorið í blöðruháls niður í hvekkhlutann.

Rafeyðing á hvekk um þvagrás
(electrovaporization, TUEP, TUEVP, TransUrethral ElectroVaporization of Prostate): Venjulegt hvekkúrnám stundum samfara (“samlokuaðgerð”). Í raun er vefurinn bræddur með rafmagni, en til þess er notað sérstakt hjól eða kúla. Einnig hægt að skera vef með þessari tækni (samlokuaðgerð, sandwich oper.)

Tengill: Læknablaðið, grein um rafeyðingu



Rafeyðing á hvekk um þvagrás.

Opið hvekkúrnám (open, transvesical, retropubic prostatectomy): notað ef hvekkur er mjög stækkaður (afstætt, >80g), blöðrusarpar til staðar ásamt steinum og þvagteppu. Farið um blöðru (Hryntschak) ellegar gegnum hvekkhýðið að framanverðu (Millin). Aðgerð utan skinu (extraperitoneal), ekki opnað inní kviðarhol.


Opið hvekkúrnám Millin´s (vi. m.) og um þvagblöðru (hæ. m.).


Leysimeðferð um þvagrás (VLAP, TULIP, laser resection)
Margar og mismunandi gerðir til (Holmium, Nd-YAG) og samanburður því erfiður. Blæðingarhætta lítil, síður eða ekki öfugt sáðlát, sjúklingar geta jafnvel tekið (notað) blóðþynningarlyf. Svipuðum árangri má ná með rafeyðingu.

Helstu fylgikvillar aðgerða:
Snemmkomnir: blæðing, sem krefst enduraðgerðar í legunni (2-10%); eðlilegt að þvagið sé misblóðugt fyrstu dagana ,en stundum blæðir aftur innan fyrstu viknanna (yfirleitt <3 vikna) þótt allt hafi verið í lagi áður. Ekki nota blóðþynningarlyf án samráðs við lækni. Þvagfærasýking (5-25%) og sérstaklega hjá þeim sem verið hafa með legg áður, lélega tæmingu eða sýkingar. Bráðamiga er algeng fyrstu dagana eftir að leggur er fjarlægður, en stundum lengur (4-12 vikur). Sjúklingum er ráðlagt að forðast erfiða vinnu eða áreynslu fyrstu 3-6 vikurnar frá aðgerð, reyna að halda hægðunum mjúkum og forðast samfarir þar til líðanin er góð og engin blóðmiga til staðar. Þvagið verður iðulega svolítið litað eftir sáðlát. “TURP-heilkenni” (<2%) getur verið lífshættulegt ástand; lækkun á s-natríum, sýru-basa ójafnvægi, skerðing á hjarta- og lungnastarfssemi, breytt meðvitundarástand (gjörgæslumeðferð).
Síðkomnir: þvagleki (1-3%), oftast áreynsluleki. Þvagrásarþrengsli (<5%), öfugt sáðlát (35-100%), ristruflun (2-15%) og minnkuð frygð/löngun (1-5%). Þvagteppa getur verið viðvarandi hjá sjúklingum (2-12%), en sérstaklega þeim sem hafa haft endurteknar teppur ellegar mjög mikla teppu að rúmmáli (>2000ml). Enduraðgerð hjá <5-10% eftir 10 ár.

Önnur meðferð
Ógrynni annarra aðferða er verið að þróa hverju sinni, t.d. innsprautun Botox og etanóls í hvekk, mismunandi hitameðferðir, TUNA, stoðleggir en flest enn á tilraunastigi og langtímarannsóknir skortir.
Stoðleggir í þvagrás/hvekkrými (stents, spirals)

Aðallega notaðir hjá sjúklingum, sem þola og/eða vilja ekki undirgangast aðgerð, þeim með langvinna þvagteppu eða tímabundna (vikur-mánuði) og bíða eftir endanlegri lausn (aðgerð). Margar og mismunandi tegundir til (Memokat, Urolume). Helstu fylgikvillar eru sýkingar, tilfærslur á stoðlegg og steinamyndun. Lítið notaðir hérlendis.