Teppuþvagfærakvilli (obstructive nephro-/uropathy, urinary tract obstruction)

Almennt: getur verið bráður eða langvinnur, með hléum, algjör eða að hluta til og gefur sig yfirleitt til kynna myndrænt með útvíkkun á þvagfærakerfum (nýraskjóðu, þvagál, blöðru); vatnsnýra (hydronephrosis), risaþvagáll (megaloureter) og vatnsþvagáll (hydroureter) eru algengustu fyrirbærin með eða án nýrnabilunar. Mögulegt er að hafa útvíkkun kerfa með stíflu og stíflu án útvíkkunar (útvíkkun ± stífla).

Þrengsli á mótum nýraskjóðu og þvagáls (efst), vatnsnýramyndun, vantar eiginlegan nýrabörk (vi. m.) og vatnsnýramyndun í hæ. nýra á TS (hæ. m.).


Staðsetning: (a) kaleikshálsar (infundibulum, hydrocalicosis), (b) nýraskjóða, (c) nýraskjóðu-þvagálsmótin (meðfætt, hlykkur, æðar, bandvefsstrengir, 20% báðum megin), (d) þvagáll (þrengsli, afleiðingar aðgerða, sýkinga og geislunar, meðfæddir staðsetningargallar, þvagáll aftan holæðar (retrocaval ureter), aftanskinutrefjun (retroperitoneal fibrosis), þvagálsgúll, steinar, æxli í aftanskinubili), (e) blöðruháls, þvagblaðra og þvagrás (taugakvillar, þrengsli, blöðkur eða lokur, aðskotahlutir, steinar, sarpar).
Orsakir: sjá að hluta hér að ofan. Orsakir innan eða utan þvagfærakerfa, meðfætt, sýkingar, bólgur, steinar, áverkar (slys, aðgerðir) og æxlisvöxtur.
Greining:
Klínísk einkenni: þreifanleg fyrirferð, sýking, blóðmiga, hiti, verkir, aðrir meðfæddir gallar sýnilegir með eða án kerfisbilana.
Blóðrannsókn: blóðhagur, kreatínín, (urea), elektrólýtar, blóðgös.
Þvagrannsókn: smásjárskoðun og ræktun.
Myndgreining: ómun oft fyrsta rannsóknin sem greinir ástandið, en aðrar nauðsynlegar eftir atvikum eru nýrnamynd (TS), sindurritun með Lasix gjöf (diuretic renography), bakflæðisrannsókn (MUCG) og jafnvel skuggaefnisrannsókn á þvagálum (ante- eða retrograde pyelography).

Sindurritun af nýrum – mismunandi túlkun ferla


Starfsemi (%) er á x-ás, en tíminn á y-ásnum.


Sérhæfðar starfsemisrannsóknir: þrýstings-flæðirannsókn eða þrýstingsmæling á þvagblöðru í völdum tilfellum.
Þvagrásar- og blöðruspeglun: meta neðri þvagfæri ef nægilegar upplýsingar koma ekki fram við gerðar (fyrri) rannsóknir sem og mat fyrir hugsanlega aðgerð, ísetning leggja til skuggaefnisrannsókna.
Meðferð: mjög einstaklingsbundin, ræðst m. a. af aldri, alm. sjúkdómsástandi, starfsemisástandi, stíflumynd, nýrnabilun, sýkingu, þvaggraftarsótt, æxlisvexti. Oft hluti af stærra vandamáli hjá börnum. Um getur verið að ræða speglunaraðgerðir þar sem skorið er á þrengsli eða þau útvíkkuð, ísetningu stoðleggja, opnar aðgerðir, kviðsjáraðgerðir, tímabundin úrræði með keraísetningu.