Næturámiga barna (enuresis nocturna, óvefræn ámiga barna)

Almennt: unnt að skilgreina sem minnst tvenn óviljandi þvaglát að næturlagi í svefni í hverjum mánuði hjá 5 ára eða einu sinni hjá 6 ára börnum. 20% fimm ára barna væta rúm >1/mánuði og 10% sex ára barna, en við ellefu ára aldur 2-3%. Oftar drengir en stúlkur og 15% barna verða þurr af sjálfu sér árlega. Blöðrurúmmál barna eykst um 30 ml/ári að jafnaði og orsakir ástandsins eru ýmist þær að rúmmál þvags að næturlagi verður meira en rúmmál blöðrunnar leyfir, blöðrurúmmálið of lítið í samanburði við eðlilegt þvagmagn, ósjálfræðir samdrættir í blöðru eða barnið vaknar ekki af e-m ástæðum. Sterk fjölskyldusaga, en fjölþætt og breytilegt, hægt að mæla lága þéttni ADH (ekki í daglegu starfi).

Einkenni: skilja á milli barna sem aldrei hafa orðið þurr (frumkomin, primær) og hinna sem væta rúm eftir að hafa verið þurr í minnst 6 mánuði (síðkomin, sekundær). Næturámigan oftast eina einkennið, sjaldnar blöðruröskunareinkenni að degi til og hægðaröskun (tregða, áskita).

Greining: alm. líkamsskoðun (meðf. gallar, taugasjúkdómar, rótareinkenni) ásamt sjúkrasögu er nægileg í upphafi ásamt því að taka þvagprufu, þvaglátaskrá getur verið hjálpleg (polyuria). Gagnlegt að mæla þvagleif við ómun/Bladder Scan. Frekari rannsóknir eiga einungis við ef grunur er um ákveðna sjúkdóma: blóðpróf, myndgreining, heilalínurit, blöðruspeglun, þrýstingsrannsóknir, osmólalítetsmæling þvags.

Meðferð: gefa ráð, bleiur ætti að forðast þar sem þær viðhalda ástandinu, minnka vökvadrykkju á kvöldin, halda dagbók, hrósa barninu, ekki skammarkrókur. Barnið og foreldrar þurfa bæði að vera ásátt um að byrja meðferð og skilja útá hvað hún gengur, sem er yfirleitt um 5-6 ára aldur.
Bjöllumeðferð: börn með lítið blöðrurúmmál hafa líklegast meira gagn af slíkri meðferð. Áhrifin koma í ljós eftir 4-8 vikur, lágmarksmeðferðartími 8 vikur, hámark 16 vikur. 50-60% barna svara vel í upphafi, halda dagbók áfram að lokinni meðferð í 3-4 vikur. 10-40% fá einkenni að nýju, má endurtaka.
Lyfjameðferð:
Desmópressín (Minirin): virkar best hjá börnum með aukna þvagmyndun að næturlagi (verkar best fyrri hluta nætur) og rúmmálsmikla blöðru. Nota úða ef tekur ekki töflur, en ekki mælt með vegna hættu á of stórum skömmtum, helst töflur, fáar og sjaldgæfar aukaverkanir, minnka vökvadrykkju f. svefninn. 50-70% barna verða strax vör við árangur <2-4 vikna og 25-60% verða þurr á meðferð, en langtímaárangur óvissari (5-61%). Reyna að minnka skammta og taka reglulega meðferðarhlé.
Amítryptílín (Amilín, Tryptizol): alm. ekki notað í dag nema í undantekningartilfellum sökum hættu á aukaverkunum.
Blöðruhemjandi lyf: Tolteródín (Detrusitol) og oxýbútýnín (Ditropan) helst gagnleg ef blöðrurúmmál er lítið, börnin missa þvag bæði að nóttu og degi.
Samtvinnuð meðferð: bjöllumeðferð ásamt desmopressín, desmópressín og blöðruhemjandi lyf. Sérstaklega ef >5 nætur/viku, fjölskylduvandamál og hegðunarvandkvæði.