Laun- og náraeista, villueista (cryptorchismus, retentio testis, undescended testis, óskriðið eista, ectopia testis)

Almennt: eistað annað hvort óskriðið eða utan alfaraleiðar/villueista (ectopia testis), hitastig í pungnum 1.5-2 °C-gráðum lægra en líkamshitinn. Mun algengara í fyrir- og léttburum (30% við fæðingu), en hjá 0.7-1% eins árs drengja. Liggja oftast í náranum, en hjá hluta þeirra sem hafa ekki þreifanlegt eista vantar eistavefinn (absent testis). Líklegast er til s. k. “ascending testis” þar sem eistað hefur áður legið í pung, en dregst síðar upp og því þarf ætíð að skoða drengi reglulega í skólaskoðunum. Ef bæði eistu eru óþreifanleg þá skal hafa í huga sjaldgæfari sjúkdóma eins og litningaraskanir, órætt kyn (intersex) og meðfæddan nýrilofvöxt (congenital adrenal hyperplasia). Ýmis frávik og meðfæddir gallar eru tengd þessu fyrirbæri. Drengir með óskriðin eistu hafa margfalda áhættu á illkynja æxlisvexti óháð meðferðarvali.

Einkenni: oftast engin, en eistað þreifast ekki í pung, rýr pungur, minni punghrukkur. Oft nárahaull/vatnshaull samfara.

Greining: aðal mismunagreining er inndrægt eista (dráttareista=nýyrði, retractile testis, testis saltans), stundum kallað “jó-jó”-eista, en tengist fátíðari fyrirbærum eins og t. d. Kallmann´s heilkennum, þvagrásarlokum, meðfæddum þvagfæragöllum, meðfæddri heilalömun (CP, cerebral palsy) og hryggrauf (spina bifida).
Klínísk skoðun er aðalatriðið við greiningu
Myndgreining: ómun, TS eða segulómun ef eista (eistu) vantar.
Kviðarholsspeglun: ef bæði eistu vantar, sjaldnar ef vantar annað. Kjöraðferð ef ekki eru til staðar einkenni um kynröskun.
hCG-örvunarpróf: ef eistu þreifast eða finnast ekki, mæla sömuleiðis s-testósterón.

Meðferð


Lyfjameðferð: hCG eða GnRH (LH-RH) hafa verið notuð, árangur hjá 15-75%, sum dragast aftur upp síðar. Óvíst um hugsanleg skaðleg áhrif á eistu/sæðisfrumuframleiðslu á frjósemisárum. Ekki beitt ef nárahaull er til staðar. Verri árangur ef eistu liggja ofarlega. Breytilegt eftir stöðum hvort slík meðferð sé gefin eða reynd.

Skurðaðgerð: eistafesting (orchidopexia, orchiopexia, Fowler-Stephens aðgerð) er kjörmeðferð við þreifanlegum eistum, sem hafa ekki gengið niður við 6 mán. aldur. Ráðlagt að gera aðgerð hjá fyrsta árið og síðasta lagi við 18 mán. aldur. Ef annað eistað finnst ekki eða er rýrt/ónýtt, þá er rétt að festa hitt í forvarnarskyni. Kviðarholsspeglun möguleg sem fyrsti liður í aðgerð þar sem eista (eistu) finnst ekki, bæði til greiningar og meðferðar. Yfirleitt ráðlagt að fjarlægja nára- eða launeistu sem greinast eftir kynþroska upp að 50 ára aldri.