Sýnataka frá hvekk, blöðruhálskirtli
Ekki gleyma töku sýklalyfja fyrir sýnatökuna!
Oftast eru sýni tekin sökum gruns um æxlisvöxt í hvekk eða hækkunar á efni í blóði sem heitir PSA og hvekkur gefur frá sér. Það getur hækkað við krabbameinsvöxt í kirtlinum, bólgur og reyndar einnig góðkynja stækkun. Sýnin eru nokkur og tekin með sérstakri nál sem stungið er um endaþarminn.
Mikilvægt er að láta lækni vita ef þú tekur
blóðþynnandi lyf, gigtar- og bólgueyðandi lyf, hefur fengið gervihjartaloku eða gerviliði úr málmi. Hann ráðleggur þér varðandi töku þeirra sem og sýklalyfja, sem alltaf eru gefin vegna sýnatökunnar. Um lyfjaofnæmi er mikilvægt að vita.

Helstu fylgikvillar, sem eru mögulegir:
Alltaf eru einhver ónot við stunguna, en flestir þola þetta vel. Ekki eru gefin nein verkjalyf eða slökunarlyf í æð. Þú þarft ekki að mæta fastandi.
Flestir sjá
blóð í þvagi í staka daga eftir sýnatökuna, stundum lengur og einnig er venjulegt að sæðið verði brún- eða blóðlitað í allt að 4-6 vikur. Aukin þvaglátaþörf, sviði í þvagrásinni og blóðlitur á salernispappír eða jafnvel utan á hægðum eftir hægðalosun er ekki óeðlilegt í fáeina daga á eftir. Þessi einkenni hverfa venjulega sjálfkrafa, en ef þú færð hita eða hroll þá skaltu hafa samband við lækni. Stöku sjúklingar eiga einnig í erfiðleikum með að tæma blöðruna fyrstu dagana á eftir, en ef þvaglátin verða miklum erfiðleikum háð eða þú færð þvagteppueinkenni (getur ekki pissað), þá skaltu einnig hafa samband við lækni. Á meðan blóð kemur í þvaginu, þá skaltu forðast erfiði, en rétt er að gera slíkt að jafnaði í 1-2 d. á eftir sýnatökuna, en lengur ef þú ert ekki alveg eins og vanalega. Kynlíf má stunda ef þér líður vel og litarbreyting á sæði er ekki smitandi ástand eða hættulegt eitt sér.

Læknirinn hefur siðan samband við þig að nýju þegar niðurstaða hefur borist úr sýnatökunni ("ræktuninni"), venjulegast innan 2 vikna og ræður hún því hvað gera þarf í framhaldinu. Hann lætur þig einnig vita um töku blóðþynnandi lyfja ef þú skyldir hafa tekið slík lyf áður og þurft að hætta töku þeirra fyrir sýnatökuna.