Reðurskekkjur (limskekkjur, deviatio penis)

Peyronie´s sjúkdómur (induratio penis plastica, induratio plastica penis)
Almennt: nokkuð algengur og myndast hersli í reðurgroppuhýðinu (oftast baklægt) sem veldur síðan skekkju niður á við, til hliðar eða aftur á við. Fyrst lýst formlega af François de la Peyronie árið 1743, en fyrsta lýsingin er þekkt í bók Aranzi frá Bólogna, “Tumores praeter naturam” frá 1587. Algengast á aldrinum 40-60 ára með tíðni á bilinu 0.3-3% (sennilega algengara en skráð og breiðara aldursbil).
Einkenni: stundum bráðaeinkenni með verkjum, eymslum og þreifanlegu hersli sem síðan verður viðvarandi í mismiklu mæli. Ristruflun algeng, bæði sálræn og líffræðileg, ætíð limskekkja.

Lykilatriði! Reðurskekkja er feimnismál hjá sjúklingum og ber að nálgast með sérstakri nærgætni.
Greining: limskekkja við risframköllun, þreifanlegt hersli, muna eftir við ristruflun, sagan dæmigerð. Ómun eða segulómun möguleg til hjálpar (sjaldan þörf). Fylgni við lófakreppu Dupuytren´s og jafnvel iljarfellskreppu (Ledderhose´s sj.d.).

Meðfædd reðurskekkja (deviatio/curvatura penilis congenita, congenital penile curvature)
Reðurhúfustrengir (chordee) með eða án neðanrásar (hypospadias) eða skekkjur án annarra sjúklegra breytinga (t. d. strengja) þar sem limur bognar yfirleitt >30° í ákveðna stefnu.

Meðferð
Ráðleggingar
Meðferð fer eftir skekkjugráðu, einkennum við samfarir eða stinningu. Ætíð bíða (>3-6 mán.) með hugsanlega skurðaðgerð við Peyronie´s þar sem hluti jafnar sig bærilega án meðferðar. Meðfæddar skekkjur lagast ekki/aldrei af sjálfu sér.
Lyfjameðferð
Margir lyfjaflokkar verið reyndir (töflur, krem, smyrsli, innsprautun), en árangur sannanlega lítill eða enginn.
Skurðaðgerð
Yfirleitt ekki beitt nema ástandið hái sjúklingi verulega og/eða skekkjan reynist a. m. k. 30° og ástandið stöðugt og alls ekki versnandi. Stefna skekkjunnar ræður miklu um aðgerð. Sjúklingar þurfa að forðast samfarir og sjálfsfróun eftir aðgerð í tiltekinn tíma (3-6 vikur).
Ebbehöj; faldsaumur í reðurgroppuhýðið andspænis sveigjunni (corporoplasty).
Nesbit; fleygar teknir úr reðurgroppu og síðan lokað með saumi.
Reðurstólpar (penile prosthesis, penis prótesur); lokaúrræðið.
ESWL: bylgjumeðferð á herslið, á tilraunastigi, óvíst með árangur.