Ófrjósemisaðgerð á körlum ("herraklipping")


Hverjir geta farið í slíka aðgerð?
Öllum heimil sem náð hafa 18 ára aldri.

Hvernig er aðgerðin framkvæmd?

Sjúklingur liggur á bakinu, ytri kynfæri þvegin með sápu og hárin á pungsvæði eru ekki rökuð. Sjúklingur fær oftast verkja- og slökunarlyf í æð og síðan er deyft með grannri nál umhverfis sæðisleiðarana, sem liggja í efri hluta pungsins.Sæðisleiðararnir eru síðan dregnir fram gegnum 5-10mm stóran skurð, yfirleitt tekinn 5-10mm bútur úr hvorum fyrir sig, brennt og bundið fyrir eða sett klemma á endana. Skurðinum er síðan lokað með þræði sem eyðist af sjálfu sér nema annað sé tekið fram
af lækni.

Þarf ég að varast eitthvað eftir aðgerð?
Aktu ekki sjálfur heim ef þú hefur fengið lyf í æð. Taktu það rólega aðgerðardaginn og ekki hjóla eða stunda íþróttir sem geta reynt óeðlilega mikið á punginn fyrstu dagana eftirá. Samfarir eða sjálfsfróun skyldi forðast fyrstu 3-4 dagana í kjölfar aðgerðar. Í lagi er að fara í sturtu, en ekki sund/baðkar fyrr en skurðirnir eru grónir (lokaðir).

Má búast við einhverjum fylgikvillum í kjölfar aðgerðar?
Búast má við einhverju mari en blæðing í pung er oftast lítil, roði eða erting vegna sauma. Sýking í sári, verkir í pung og nárum, þykkildi undir skurðinum vegna örvefsmyndunar á sæðisleiðurum. Fylgikvillar þessir eru fátíðir og yfirleitt minniháttar. Ristruflun eða breytingar á hormónastarfsemi er ekki hægt að rekja til aðgerðarinnar og karlar hafa eftir sem áður sáðlát með sömu tilfinningu, en þá án sæðisfrumna.

Hvernig er eftirliti háttað?

Sjúklingi er ráðlagt að hafa samband við heimilislækni ef einhverjar spurningar vakna í kjölfar aðgerðar eða vandamál koma upp. Skila skal sæðisprufu í samráði við lækni er framkvæmir aðgerðina eða heimilislækni til þess að kanna hvort aðgerðin hafi verið vel heppnuð. Sæðisprufu má skila í þvagprufuglasi sem fæst keypt í lyfjabúð. Sjúklingar þurfa að hafa haft sáðlát (við sjálfsfróun eða samfarir) að minnsta kosti tíu sinnum áður en sæðisprufan er tekin 6-8 vikum eftir aðgerðina.

Hversu örugg er aðgerðin?

Sæðisleiðararnir geta opnast að nýju í minna en eitt prósent tilvika. Slíkt getur gerst jafnvel mörgum árum eftir aðgerðina og er ekkert sem getur með vissu komið í veg fyrir það.

Get ég eignast börn síðar ef þörf verður á?
Hægt er tengja sæðisleiðarana saman að nýju með skurðaðgerð og möguleiki er líka við ákveðna tegund tæknifrjóvgunar. Það er þó ekki hægt að tryggja barneignir að nýju með þessum aðferðum. Gæði sæðisins versna yfirleitt eftir því sem fleiri ár líða frá aðgerð og einnig myndast mótefni sem truflað geta árangurinn.