Kynfæravörtur karla (condyloma = hnúðvarta, anogenital warts, veirusýking í bakrauf og kynfærum, HPV)

Almennt: um er að ræða vörtur vegna Human Papilloma Virus (HPV) sýkingar sem geta leitt til ekki sýnilegra myndunar æxlisvaxtar við beraugnaskoðun (intraepithelial neoplasia) og illkynja æxlismyndunar á kynfæra- og bakraufarsvæðum (anogenital cancer). HIV-sýktir eru í áhættu sem og þeir er nota ónæmisbælandi lyf.
Einkenni: birtast yfirleitt þar sem núningur verður mestur við samfarir, stundum stakar, oftast 5-15 vörtur 1-10 mm í þvermál, oftast undir eða við forhúð sem og reðurhúfugrófina, en aðallega á reðurskaftinu ef búið er að umskera sjúkling. Allt kynfærasvæðið, leggöng, skeiðarbarmar og bakrauf eru legustaðir varta og ytra þvagrásaropið hjá 20-25% karla (sjaldnar innan þvagrásar). Oftast einkennalaus, stundum blóðmiga, kláði, særindi og jafnvel sáramyndun. Geta verið í munni og koki. Einkenni geta komið fram mörgum árum eftir smit eða mök við sýktan einstakling.

Dæmigerðar vörtur á forhúð.

Greining: mislitar vörtur, yfirleitt mjúkar, sem geta verið blómkálslaga eða keilulaga (acuminata), bólóttar (papularis) eða flatar (lata) og blettóttar (macularis) og sjást yfirleitt með berum augum ef hefðbundnar. Endaþarmsspeglun, þvagrásarspeglun og notast má við eyrnaspegil eða andanefju t. a. skoða fremsta hluta þvagrásar. Edikssýra 3-5% (acetic acid) getur verið hjálpleg við greiningu flatra varta/vart sýnilegra. Helstu mismunagreiningar eru PPP (Pearly Penile Papules, “perlubólutyppi”) sem einkennast af 1-2 mm stórum bólum við eða meðfram reðurhúfugróf hjá strákum eftir eða við kynþroska og stundum síðar, flökkuvörtur (molluscum contagiosum), ellivörtur og góðkynja húðsepar. Tvær tegundir eru sérstaklega mikilvægar:
Bowen´s sjúkdómur/Bowenoid nabbar (papulosis, örður): sýnileg mein (af meingerð HPV 16 yfirleitt), alm. eldri sjúklingar (BS 40-50 ára og BP 25-35 ára). Brúnar eða laxableikar, gráhvítar eða brúnsvartar breytingar.
Bowenoid nabbar (papulosis).

Risavörtur (giant condyloma, Buschke-Löwenstein æxlismyndun): fátíður fylgifiskur HPV 6 og 11, stórar og útbreiddar vörtur er vaxa undirhúð og leynst geta illkynja breytingar þótt meinsemdin sé í eðli sínu góðkynja.

Rannsóknir: vefjagreining getur verið nauðsynleg við óvenjulegar vörtumyndanir, litarbreytingar, ef illa gengur að meðhöndla með hefðbundnum ráðum og ef sármyndanir og langvinn einkenni hjá eldri sjúklingum (35-40 ára). HPV-greining í sermi ekki möguleg.
Fyrirbyggjandi meðferð: Hjá stúlkum/konum og þarf að bólusetja þær áður en kynlíf hefst til að fá fullkomna vörn.
Meðferð: Engin örugg lækning, en mestur hluti læknast af sjálfu sér. Þegar þarf meðferð þá skal meðhöndla báða/alla aðila samtímis. Val meðferðar ræðst m. a. af fjölda, stærð og útbreiðslu. Smokka skal nota meðan vörtur eru sýnilegar og líka ef nýr kynlífsþátttakandi verður fyrir valinu (karl eða kona), en breytir varla miklu hjá mótaðila sem er þegar sýktur. Læknir hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að leita uppi mögulega sýkta einstaklinga og vera ráðgefandi fyrir framtíðina.
Meðferð heimavið: sj. stýrir þessari meðferð sjálfur.
Podophyllotxin (Condylline®): áburður til penslunar. Aðallega smærri vörtur, má endurtaka síðar, tvisar á dag í þrjá daga með viku millibili allt að fimm sinnum. 70-90% varta hverfa eftir 1-2 kúra og 50-80% verða vörtulausir 1-4 kúra. Endurkomutíðni 7-38%. Sérfræðimeðferð eftir 3-4 kúra án árangurs og vörtur við þvagrásarop meinheldnar. Sviði og brunatilfinning algeng í upphafi meðferðar.
Imiquimodum (Aldara®): krem er berist á þrisvar í viku, annan hvern dag f. svefn og þvegið af innan 6-10 klst. Allt að 4 mán. meðferðartími, en hætta meðferð þegar mein eru horfin. Lækning næst hjá 40-62% og algengustu aukaverkanir eru roði, sviði og kláði.
Sérhæfð meðferð á lækningastofu:
Skurðaðgerð, brennsla með leysi eða rafmagni, frysting (cryotherapy. Allar meinsemdir sem eru meðhöndlaðar rétt hverfa, en 20-30% sjúklinga geta myndað nýjar meinsemdir við jaðra gömlu breytinganna.