Skurðaðgerðir við áreynsluþvagleka hjá konum

Hvað er áreynsluþvagleki?
Áreynsluþvagleki er sá leki sem myndast við alla áreynslu er eykur kviðarholsþrýsting og almennt má því segja að þrýstingur í þvagblöðru verði meiri en í þvagrásinni sjálfri. Það lekur t.d. við hósta, hnerra, snöggar hreyfingar, hlátur og það að lyfta þungu.

Skoðun læknis:
Áður en til skurðaðgerðar kemur við áreynsluþvagleka er mikilvægt að taka góða sjúkrasögu þar sem þvagblaðran er óáreiðanlegt vitni. Þvaglekinn er ekki alltaf tengdur ákveðnum sjúkdómi. Gerð er nákvæm líkamsskoðun og hjá konum er sérstaklega athugað með sig á grindarbotnslíffærum og þá bæði á blöðru og legi, sömuleiðis sig á aftari skeiðarvegg.

Þarf ég að fara í einhverjar rannsóknir fyrir hugsanlega skurðaðgerð?
Rannsóknir fara eftir þeirri aðgerð sem ráðlögð er eftir skoðun læknis. Hefðbundnar grunnrannsóknir eru þvagsýni, þvaglátaskrá og yfirleitt er mæld svokölluð þvagleif með ómun (hversu mikið er eftir af þvagi í þvagblöðru eftir að þú hefur kastað vatni). Frekari rannsóknir ráðast af niðurstöðum ofangreindra athugana. Stundum þarf að gera sérstakar rannsóknir eins og t.d. blöðruspeglun, taka blóðsýni og gera þrýstingsmælingu á þvagblöðru. Sjaldnast þarf að gera röntgenrannsóknir.

Hvaða skurðaðgerðir koma til greina við áreynsluþvagleka?
Yfirleitt er skurðaðgerðin síðasta úrræðið sem ráðlagt er og mikilvægt að sjúklingur hafi fengið upplýsingar um öll önnur meðferðarúrræði sem í boði eru og geta hentað viðkomandi. Samanburður á mismunandi skurðaðgerðum er erfiður þar sem mjög skortir á stórar slembi- og langtímarannsóknir, aðgerðartækni er ekki stöðluð og sýndaráhrif (placebo áhrif) geta verið mikil. Það verður æ sjaldgæfara að gerðar séu opnar skurðaðgerir. Algengast er að gera aðgerðir sem krefjast lítilla eða minniháttar skurða og konur þurfa ekki að leggjast inn á sjúkrahús. Lykilatriði fyrir ágætan árangur er að velja réttu skurðaðgerðina þannig að úrræðið sé rétt m.t.t. orsakar eða tegundar þvaglekans. Lengi býr að fyrstu gerð og ljóst er að fyrsta skurðaðgerðin gefur yfirleitt bestu möguleika á ágætum og langvinnum árangri.

Aðgerðir ofan lífbeins:
Þessar aðgerðir voru algengastar fram til aldamóta en eru sjaldgæfar núorðið sökum annarra einfaldari úrræða; þær þarf þó að nefna sökum þess að sums staðar eru þær ennþá fyrsta val. Yfirleitt er skurður gerður ofan lífbeins og þá annað hvort í lengdarstefnu eða svokallaður bikiniskurður. Settir eru saumar við blöðruhálsinn eða þvagrásina sem er síðan festur upp við liðbönd í grindarbotni. Þessar aðgerðir styðja við þvagrásina eða blöðruhálsinn. 60-90% kvenna fær algjöran bata fyrstu árin eftir slíkar aðgerðir en eins og við margar fyrri aðgerðir sem gerðar hafa verið, þá verður árangurinn lakari er frá líður. Að fimm árum liðnum hefur allt að fimmtungur kvenna fengið þvagleka að nýju. Fylgikvillar eftir slíkar aðgerðir eru fátíðir og helst má nefna blæðingar, áverka á þvagfæri og sárasýkingar. Sumar konur fá einkenni um bráðamigu í kjölfar aðgerðanna. Aðgerðir ofan lífbeins krefjast ætíð innlagnar á sjúkrahús, yfirleitt er þvagleggur hafður í 1-2 sólarhringa á eftir og konur þurfa að forðast áreynslu í nokkrar vikur í kjölfar aðgerðar, gæta að hægðum og þvaglosun og fá ráðleggingar varðandi samfarir í kjölfarið.

Fremri leggangasaumur:
Stundum eru gerðar aðgerðir um skeið eða leggöng (“vaginal”- aðgerðir). Þá er yfirleitt gerður skurður í leggöng eða fremri skeiðarvegg, blöðrusigi ýtt til baka og settir styrktarsaumar yfir. Þessar aðgerðir eru sjaldan gerðar í dag sem einasta aðgerð við þvagleka, en fremur sem viðbótaraðgerð ef blöðrusig er samfara áreynsluleka. Árangur slíkra aðgerða einna sér er lakari en eftir aðgerðir ofan klyfta bæði til lengri og skemmri tíma litið. Fylgikvillar eru hins vegar fátíðir og fátítt að konur fái bráðamigu í kjölfarið. Sýkingar og blæðingar eru sömuleiðis sjaldgæfar. Sumar konur fá samfarasársauka í kjölfar aðgerða um skeið. Svipað gildir um innlagnir og eftirmeðferð og sagt var hér að ofan um aðgerðir ofan lífbeins.

Innsprautun þéttiefna í eða við þvagrás:
Um er að ræða sérstök efni sem unnt er að sprauta með nál í gegnum blöðruspeglunartæki. Sömuleiðis eru til í dag aðferðir þar sem unnt er að sprauta þéttiefni án blöðruspeglunar samtímis. Markmiðið með þessum aðgerðum er að bæta lokuvirkni blöðruhálsins eða innsta hluta þvagrásarinnar þannig að þéttiefnið eykur mótstöðu í þvagrás. Fátítt er að konur fái fylgikvilla í kjölfarið, en sumar fá svolítinn sviða eða vægan verk í þvagrás í nokkra daga á eftir og þvagtregða kemur vart fyrir. Svo virðist sem aðgerðir þessar bæti þvaglekann hjá 40-70% kvenna. Þær má endurtaka án vandamála og sumir telja í raun endurtekna innsprautun hluta meðferðar. Innsprautun þéttiefna getur verið gott val hjá sjúklingum sem þola ekki aðrar aðgerðir eða frábendingar til staðar. Aðgerðir þessar eru fljótlegar og krefjast ekki innlagna. Sjúklingi er ráðlagt að taka því rólega daginn sem aðgerð er gerð en annars engin sérstök varnaðarorð.

Aðgerðir með kviðsjártækni:
Þessar aðgerðir eru lítið notaðar í dag. Árangur virðist lakari en við sambærilegar opnar aðgerðir og vart samkeppnisfærar hvað varðar kostnað.


“TVT” og aðrar skeiðarbands-aðgerðir:
Þessar aðgerðir má einnig kalla fetilaðgerðir (“sling-aðgerðir”) en þar er vöðvafelli (vöðvafell er bandvefsslíður eða kápa sem klæðir vöðva t.d. frá kviðvegg eða læri) eða gerviefni (t.d. nælonefni við TVT, Tension-free transVaginal Tape, TOT (Trans-obturator tape) og fleiri) komið fyrir neðan þvagrásar og liggur þvagrásin þá í nokkurs konar koju eða ístaði.

Sérstakar nálar eru notaðar við að koma bandinu fyrir þannig að skurðsárin við t.d. TVT-aðgerð eru einungis tvö 0,5 cm göt ofan lífbeins og eitt 2 cm neðan þvagrásar. Árangur sýnist góður og 70-90% kvenna eru þurrar að fimm árum liðnum. Fylgikvillar eru almennt talað fátíðir en helstu vandamál sem geta komið upp eftir slíkar aðgerðir eru verkir yfir blöðrusvæði og lífbeini sem og í leggöngum, truflun á þvaglátum, þvagtregða eða jafnvel þvagteppa og stundum bráðamiga. Sýkingar koma vart fyrir en hafa ber það í huga að þar sem gerviefni er notað við aðgerðina, þá getur það rutt sér leið inn í þvagfæri síðar og þarf þá að fjarlægja slíkt með annarri aðgerð.
Skeiðarbands-aðgerðir hafa breytt talsverðu hvað varðar ábendingu aðgerðar og æ fleiri konur kjósa skurðaðgerð þar sem hún á við sökum góðs árangurs. Algengustu aðgerðir við hreinum áreynsluþvagleka í dag er TVT-aðgerð eða TOT-aðgerð. Aðgerð er ýmist gerð í staðdeyfingu samtímis því að gefin eru verkja- og slævandi lyf í æð. Í annan stað er unnt að gera aðgerðina í svæfingu eða mænudeyfingu. Eftir aðgerðina er mikilvægt að konur taki því rólega í 1-2 vikur, forðist þá mikla áreynslu eða erfiði og yfirleitt forðast samfarir á sama tíma. Gæta þarf vel að hægðum og þvaglosun.

Lokaorð:
Ljóst má vera að aðgerðarúrræði eru mjög fjölbreytt í dag og eiga væntanlega eftir að aukast enn frekar á næstu árum. Það verður þó aldrei áréttað um of að konur leiti allra annarra úrræða áður en til skurðaðgerðar kemur og mikilvægt að þær fái upplýsingar um batahorfur og helstu fylgikvilla eftir því sem við á hverju sinni. Hins vegar á langtímaárangur skurðaðgerða við áreynsluþvagleka hjá konum í dag að vera mjög góður. Aðgerðirnar eru almennt talað umfangsminni og valda síður alvarlegum fylgikvillum. Á sama tíma hefur eftirmeðferð og bataskeið styst mjög.