Almennt um ástand, afturbata eftir "Aðgerð á blöðruhálskirtli um þvagrás"

Í fyrstu eftir aðgerðina getur þú hugsanlega átt í erfiðleikum með stjórn þvaglátanna. Blóð eða blóðflygsur er algengt að sjá í þvaginu öðru hvoru og jafnvel í nokkrar vikur eftir aðgerð. Stundum getur aftur byrjað að blæða þrátt fyrir að þvagið hafi verið eðlilegt um nokkurt skeið. Stafar þetta af því að sárskorpan (hrúðrið) fellur af. Ef þetta gerist skaltu hafa hægt um þig á meðan blæðir og auka vökvadrykkjuna eftir getu.

Stöðvist blæðing
ekki eða erfitt verður að losa blöðruna skaltu hafa samband við lækni. Hið sama gildir ef þú færð hita.

Mikilvægt er að halda áfram að drekka vel og forðast erfiði í um 3-6 vikur. Nauðsynlegt er að halda hægðum mjúkum og rembast ekki fyrst eftir aðgerðina. Ekki skal stunda samfarir/samlífi fyrr en líðan þín er orðin góð og engin blóðmiga er til staðar. Stinning á að vera svipuð og fyrir aðgerð, en flestir verða varir við það að sæðið sprautast inn í blöðru en ekki út í gegnum þvagrásina við sáðlát (öfugt sáðlát).

Hafir þú hætt blóðþynningu (Hjartamagnýl, Kóvar eða önnur þynningarlyf) fyrir aðgerð færðu upplýsingar hjá lækninum hvenær þú átt að hefja hana aftur, venjulegast eftir 10-14 daga og þá ef engin blæðing er í þvaginu.