Upplýsingar um þvagfærarannsóknastofu á Handlækningadeild FSA

Söguleg atriði um þvagfæralækningar, blöðruspeglanir og þrýstingsmælingar

Þvagfærasjúkdómar eru jafngamlir mannkyninu. Þvagfæraskurðlækningum sem sérgrein var fyrst komið á fót árið 1890 í Frakklandi og Felix Guyon fyrsti prófessor í París. Þótt mikilvægi þeirra hafi aukist með auknum aldri fólks, þá eru meðfæddir gallar hinir algengustu er greinast í dag, sýkingar og steinamyndanir ennþá mjög algengar, blöðruhálskirtilssjúkdómar hjá körlum tíðir og krabbamein í þvagfærum meðal algengustu meina af þeim toga. Aðgerðir, rannsóknir og innlagnir tengdar þvagfærasjúkdómum teljast í dag vera meðal hinna algengustu í hinum vestræna heimi. Samt sem áður eru þessir sjúkdómar lítill “fréttamatur”.

Nokkur söguleg atriði:

Nútíma blöðruspeglunartæki af stífum toga kynnt 1879
Edison glóðarlampinn - rafmagnsperan - (1879) breytti öllu og var ríkjandi í tæp 60 ár
“Kalt ljós” kom 1960, ljós sem ekki gefur frá sér hita
Hopkins keilulinsur (1966)
Sveigjanleg tæki þróuð eftir 1980-85
Þrýstingsmælingar jafn gamlar þvagleggjum, byrjuðu um miðja 19du öldina, tölvutæknin, þrýstingsnemar og annað þess háttar breytt miklu



Almenn atriði:
Rannsóknir á þvagfærum geta aukið mjög áreiðanleika greiningar þvagfærasjúkdóma og í framhaldinu meðferðarúrræði fyrir stóran hóp sjúklinga á öllum aldri og báðum kynjum. Fram til þessa hefur einungis verið unnt að framkvæma takmarkaðan hluta þeirra hér á FSA en nýtilkominn tækjabúnaður og breytingar á starfsemi gera það að verkum að framboð rannsókna eykst verulega og stenst fyllilega samanburð við aðrar þvagfæradeildir þar sem slíkar rannsóknir eru gerðar.

Þrýstingsrannsóknir:
Um er að ræða sérstakan útbúnað til þrýstingsrannsókna á neðri þvagfærum hjá körlum, konum sem og börnum. Í rannsóknum þessum felst að settir eru sérstakir þvagleggir inn í þvagfærin og vökva dælt þar inn. Unnt er að fylgjast með þrýstingsbreytingum í þvagfærum við mismunandi mikið rúmmál vatns í þvagblöðru og tæmingu hennar svo dæmi sé gefið. Rannsóknirnar eru notaðar hjá sjúklingum með ýmiskonar þvagfæravandamál. Þau algengustu eru fjölmargir taugasjúkdómar sem hafa áhrif á þvagblöðru og neðri þvagfæri, margskonar þvaglátaeinkenni en þó aðallega þvagtregða, þvagteppa og þvagleki af ýmsum gerðum. Við rannsóknina eru engin deyfilyf gefin, hún er óþægindalítil fyrir sjúkling og tekur yfirleitt 1-1½ klukkustund. Þvagflæðimælingar eru einnig gerðar með hinum nýja búnaði. Rannsóknir þessar eru oft á tíðum mjög mikilvægar þegar ákveða skal skurðaðgerðir við ýmsum þvagfærakvillum, svo sem þvagleka hjá konum og blöðruhálskirtilssjúkdómum hjá körlum.

Speglanir á neðri þvagfærum:
Hér er fyrst og fremst um að ræða svokallaða blöðruspeglun, en þá er speglunartæki með ljós á endanum, þrætt í gegnum þvagrásina og speglað inn í blöðru með því að dæla skolvökva inn í blöðruna samtímis. Speglunin er gerð með sveigjanlegum speglunartækjum sem gera það að verkum að rannsóknir þessar er hægt að framkvæma í staðdeyfingu með óverulegum óþægindum og ekki er þörf á verkjalyfjagjöf í æð. Stærstu hóparnir sem þurfa að fara í blöðruspeglun eru þeir sem hafa ýmiskonar þvagfæraeinkenni, ekki hvað síst frá neðri þvagfærum og má þar nefna endurteknar þvagfærasýkingar, blóð í þvagi, grun um þvagblöðruæxli eða steina, þvagleka og þvagteppuástand.

Gjafir til Handlækningadeildar FSA
Ein megin forsenda þess að unnt var að ráðast í ofan nefndar breytingar var sú að Handlækningadeild FSA áskotnuðust gjafir 2004. Lionsklúbburinn Ösp á Akureyri og Pokasjóður verslunarinnar gáfu fé til kaupa á tækjabúnaði til að framkvæma þrýstingsrannsóknir og þvagflæðimælingar og Sjúkrasjóður Verkstjórafélags Íslands gaf og fé til kaupa á sveigjanlegu blöðruspeglunartæki. Stuðningur og velvilji þessara aðila er hér með þakkaður af heilum hug.