Kólfsæðahnútar, æðahnútar í pung, pungæðahnútar (varicocele)

Einkenni: misstór og mjúk fyrirferð í pung eða kólfi (bag of worm), oftast vinstra megin, hverfur alveg eða að mestu þegar sjúklingur leggst, verkjaseiðingur í pung, nára og jafnvel innaverðu læri. Byrjar venjulega um eða eftir kynþroska, sjaldgæft fyrir 10 ára aldur. Flokkað eftir stærð í gráðu I-III. Rúmmál eista minnkar gjarnan hjá drengjum með kólfsæðahnúta af gráðu II-III. Finnst hjá 10-20% unglinga og hefur áhrif á frjósemi hjá 20% þeirra.

Greining: klínísk skoðun (standandi og liggjandi), en stundum ómskoðun ef lítið eða ekki sjáanlegt með vissu. Muna eftir sjúkdómum í aftanskinubili/nýra.
Meðferð
Engin: ef einkennalaust og ekki frjósemisvandamál (hjá eldri). Spyrja um barneignir, taka sæðisprufu ef þarf (mat f. aðgerð). Erfitt að sýna fram á árangur aðgerða í æsku á betri frjósemi síðar.

Skurðaðgerð: ef gefur einkenni, verulega stórt, ef tvíhliða ellegar skert frjósemi. Eistun tapa frekar starfsemi og rúmmál þeirra minnkar hjá unglingum með sjúkdóm af gráðu II-III og þeim almennt ráðlögð aðgerð. Venjulega náraskurður. Slíðurhjúpur pungs (tunica vaginalis) stundum klofinn upp samtímis t. þ. a. minnka líkur á vatnshaul í kjölfarið.

Önnur meðferð: æðastíflun með röntgentækni, kviðarholsspeglun og klemma (-ur) sett á æðastofninn (lítið notað).