Millivefsblöðrubólga (interstitial cystitis, cystitis interstitialis)

Almennt: langvinnur sjúkdómur í þvagblöðru, hugsanlega af bólgutoga en orsök óþekkt. Yfirgnæfandi meirihluti sjúklinga eru konur (9:1) og veldur einkennum áratugum saman í verstu tilfellum. Meðalaldur við greiningu 40-45 ára, en einkenni iðulegast í nokkur ár áður. Hluti af s.k. Chronic Pelvic Pain eða Bladder Pain syndrome.

Einkenni: verkur á blöðrustað/grindarholi, skeið, spangarsvæði, lærum, skánar yfirleitt eftir þvaglát, versnar oftast við samfarir, tíð þvaglát, næturþvaglát, stundum þvagleki, bráðamiga. Truflar mjög svo daglegt líf sjúklinga sökum heiftarlegra einkenna og minnkar lífsgæði, en hefur tilhneigingu t. a. koma og fara, slitrótt einkenni hjá flestum.

Greining: í sjálfu sér engin örugg skilmerki til, eiginlega útilokunargreining í mörgum tilfellum. Notast má við (umdeild) skilmerki NIDDK (BNA) sem eru: (A) við blöðruspeglun(framkvæmd í svæfingu/mænudeyfingu) útbreiddar punktblæðingar (glomerulations, petechial hemorrhages) í blöðruslímhúð eða Hunner´s sáramyndun eða (B) annað eftirtalinna einkenna: verkur í þvagblöðru eða tíð þvaglát. Útilokunaratriði eru m. a.: aldur <18 ára, þvaglát <8/dag, blöðrurýmd >350 ml að degi til, einkenni <9 mánuði, einkenni lagast á sýklalyfjum eða blöðruhemjandi lyfjum, þvagfærasýking síðustu 3 mánuði, engin merki um verk/þvaglátatilfinningu við 150 ml rúmmál í blöðru við þrýstingsmælingu. Sýnataka frá þvagblöðru ekki örugg leið til greiningar og ekki nauðsynlega samband milli útlits blöðru (speglun, meinafræðirannsókn) og einkenna sjúklings.

Meðferð: engin þekkt meðferð læknar sjúkdóminn eða einkennin, flest verið reynt. Náttúrulegur gangur þó breytilegur.

Lyfjameðferð: andhistamín, blöðruhemjandi lyf (röng greining?), Elmiron (undanþágulyf), sterar (?), geðdeyfðarlyf, verkjalyf. Regluleg lyfjainnhelling í þvagblöðru (vikulega í byrjun x 4-6, lengja síðan) mikið notuð og ýmislegt verið notað, t.d. Rimso-50 (DMSO, dímetýlsúlfoxíð), heparín, BCG.
Vatnsútvíkkun (hydrodistension) þvagblöðru við blöðruspeglun í svæfingu/deyfingu getur minnkað einkenni mislengi, má endurtaka, hjálpar við greiningu.
Skurðaðgerðir: skera Hunner´s sár og brenna um þvagrás, fjarlægja þvagblöðru (cystectomy), nýblaðra, hjáveituaðgerðir (þvagraufun); árangur misjafn og jafnvel þótt þvagblaðran sé fjarlægð hverfa ekki einkenni allra sjúklinga.