Blóðþurrð (renal ischemia) og fleygdrep (renal infarct/necrosis) í nýra

Blóðsegi í nýrabláæð (renal vein thrombosis)
Almennt: algengastur æðakvilla hjá nýburum og þá stundum í tengslum við þurrk, sýkingu eða æðarannsókn. Hjá fullorðnum tengt æxlisvexti, nýrungaheilkenni (nephrotic syndrome) eða nýrnakvillum. Sjaldan báðum megin.
Einkenni: ráðast af aldri. Stundum lítil/engin, verkur í síðu, hækkaður blóðþrýstingur, stækkun á nýra, smásæ eða sýnileg blóðmiga, prótín í þvagi, blóðleysi, fjölgun hvítra blóðkorna og hækkun á CRP.
Greining: ekki greint á klínískum einkennum eingöngu. Sést yfirleitt vel við TS eða segulómun, en bláæðarannsókn með skuggaefni (renal venography) gefur ætíð rétta greiningu í vafatilfellum. Rtg. IVP (sjaldgæf í dag) sýnir stækkun á nýra með skertri/lélegri starfsemi og við ómun (Doppler) sést yfirleitt segi og stækkun á nýra. Auk frávika í alm. blóð- og þvagrannsóknum (sjá að ofan) getur verið breyting á storkuþáttum.


Meðferð: Börn þarf að vökva vel (eftir því sem við á), gefa storkuleysandi efni og jafnvel gera blóðseganám með aðgerð. Hjá fullorðnum er yfirleitt gefin blóðþynning í formi heparíns, þótt erfitt sé að sanna árangur varðandi horfur, en betri árangur ef sértæk blóðsegaleysandi meðferð (selective thrombolytic therapy) er möguleg. Aðgerðir afar sjaldgæfar (eitt nýra, aðrir kostir árangurslausir).

Slagæðablóðrek/tappi/segi í nýraslagæð (renal artery emboli/thrombosis)


Blóðsegi í aðalstofni nýrabláæðar (vi. m.) og fleygdrep í vi. nýra sökum blóðreks (vi. m.).

Almennt: hjá börnum aðallega tengt leggísetningu í naflaæðar, en hjá fullorðnum í tengslum við hjartalokusjd., gáttaflökt, hjartadrep, gúlmyndun í slegli, hjartaæxli og jafnvel röntgenrannsóknir með ástungum eða kólesteról blóðrek (cholesterol emboli syndrome).

Einkenni: oft lítil og ódæmigerð einkenni, jafnvel einkennalaust. Annars síðuverkur, kviðverkir, ógleði, uppköst og hjá börnum öndunarefiðleikar, hjartabilun, blóðmiga sem og hjá fullorðnum.

Greining: sjaldan dæmigerð klínísk einkenni. Blóð og/eða prótín í þvagi, hækkun á LDH og fíbrínógeni, en sjaldnar á öðrum lifraprófum, fjölgun hvítra blóðkorna og á CRP. Sjaldan nýrnabilun eða hækkun á kreatínín ef hitt nýrað eðlilegt (fer eftir útbreiðslu). TS eða segulómun bestu rannsóknirnar í upphafi ásamt sindurritun, en æðarannsókn með skuggaefni (renal angiografia) ef annað dugar ekki. Ómun og rtg. IVP geta verið villandi og falsk neikvæðar.

Meðferð: einstaklingsháð, stuðningsmeðferð. Sértæk blóðreksleysandi meðferð (selective percutaneous thrombolytic therapy, thrombectomy), heparíndreypi, díalýsa. Skurðaðgerð í undantekningartilfellum ef sj. hefur eitt nýra og önnur meðferð dugar ekki og heilsufar a. ö. l. viðunandi.