Leiðbeiningar til sjúklinga sem fá BCG - innhellingu í blöðru

BCG (Bacillé-Calmette-Guérin) er lyf sem er unnið úr skertum berklabakteríum þ.e.a.s. bakteríurnar eru gerðar þannig að þær eiga ekki að geta gefið berklasjúkdóm. Sjúklingar sem fá krabbameinsæxli í þvagblöðru sem vaxa í yfirborðsþekju blöðrunnar eru yfirleitt í fyrstu meðhöndlaðir með aðgerð í gegnum þvagrásina þar sem þessar æxlisbreytingar eða sepamyndanir eru skornar og brenndar í burtu. Því miður geta margir fengið nýjar æxlisbreytingar síðar og þetta gerir eftirlit nauðsynlegt við þessum sjúkdómi með reglulegu millibili. Til þess að minnka líkurnar á nýjum æxlisbreytingum í þvagblöðru er hægt að gefa lyf inn í þvagblöðruna og rannsóknir hafa sýnt að BCG-innhellingar hafa gefið bestan árangur og minnkað líkurnar verulega á því að ný æxli myndist. Meðferðin fer þannig fram: 1. Byrjað er á að taka þvagprufu og hún athuguð strax því meðferðin er ekki gefin ef sýklar eru í þvaginu. 2. Látinn er þvagleggur upp í þvagblöðruna gegnum þvagrás og þvagið tæmt úr blöðrunni. 3. BCG lausninni er sprautað inn í blöðruna gegnum þvaglegginn sem síðan er fjarlægður. 4. Upplausnin þarf að vera í þvagblöðrunni í tvær klukkustundir til þess að lyfið verki sem best, nauðsynlegt er að sjúklingur gangi um, hann þarf sömuleiðis að liggja á baki og maga og báðum hliðum. Ef sjúklingar eru rúmliggjandi þurfa þeir að snúa sér á 15 mínútna fresti á allar hliðar. 5. Sjúklingur skal losa sig við þvagið (eftir tvær klukkustundir) í salernið sitjandi. Þessi meðferð er venjulegast gefin einu sinni í viku í samtals sex vikur. Blöðruspeglun með sýnatöku er gerð tveimur til fjórum vikum eftir síðustu meðferð. Til greina kemur að gefa áframhaldandi meðferð og fer það eftir ákvörðun læknis hvernig þeirri meðferð er háttað. Einn möguleikinn er að gefa meðferð með viku millibili í þrígang eftir 3, 6 og 12 mánuði frá upphafi meðferðar. Varúðarreglur fyrir sjúklinginn: Undirbúningur fyrir meðferðina: Það er ekki ráðlegt að drekka vökva í fjórar klukkustundir áður en meðferð fer fram og ekki á meðan þú hefur lyfið í blöðrunni. Þetta er til þess að minnka líkur á þvaglátaþörf og til að lyfið þynnist ekki um of í blöðrunni. Einnig á að sleppa því að taka þvagræsilyf að morgni meðferðardags. Reglur varðandi selernisnotkun: Eftirfarandi reglur gilda í hvert skipti sem þú tæmir þvagblöðruna þann tíma sem meðferð stendur og einnig í tvær vikur eftir síðustu meðferð. Það er mikilvægt að undirstrika að þessar reglur gilda sem sagt ekki bara við tæmingu eftir meðferð í fyrsta skiptið. 1. Það er mikilvægt að forðast að þvagið fari út fyrir salernisskálina og því skulu bæði konur og karlar sitja þegar þau kasta þvagi. 2. Eftir tæmingu skaltu þurrka þvagrásaropið með salernispappír sem skola skal niður. 3. Þvoið hendur með sápu og vatni fyrir og eftir skol og notið eigin handklæði. 4. Ef þú umgengst sjúklinga sem hafa skert eða bæklað ónæmiskerfi er mikilvægt að forðast náin samskipti á meðan meðferð stendur. Þetta eru t.d. sjúklingar sem fá krabbameinslyfjameðferð, hafa hvítblæði eða verulegar líkur á alvarlegum sýkingum vegna bæklaðs ónæmiskerfis. 5. Karlar skulu nota verjur við samfarir á meðan meðferð stendur og í tvær vikur eftir síðustu meðferð. 6. Óhætt er að fara í sund eftir 3 - 4 daga. Óþægindi sem þú getur fengið við meðferðina: 1. Tíð þvaglát og einnig sviði í þvagrás er venjulegt fyrstu 2-3 dagana eftir hverja meðferð. 2. Svolítil hitahækkun með almennum kvef- eða flensueinkennum getur komið fyrir fyrstu dagana eftir hverja meðferð. 3. Þvagið getur orðið blóðlitað en þá er mikilvægt að auka vökvainntöku. 4. Ef þú færð háan hita sem varir lengur en í tvo daga og einnig veruleg veikindaeinkenni á sama tíma biðjum við þig vinsamlegast um að hafa samband við Handlækningadeild FSA.
Texti unnin af starfsfólki Handlækningadeildar FSA.