Þrýstingsmæling á þvagblöðru (cystometria):

Mögulegt er að mæla þrýsting innan þvagblöðru, í þvagrás (UPP) og endaþarmi, EMG, ferlimælingar á neðri þvagfærum (ambulatory urodynamics, rannsóknir í daglegu lífi), lekaþrýstingur (leak-point pressure), þrýstingsflæðimæling, myndbandslekarannsókn (videoCUG, getur flokkað áreynsluleka nákvæmlega í gerð 0, I-III).

Helstu niðurstöður geta gefið til kynna eftirfarandi (stundum skarast niðurstaðan):

Óstöðugur blöðruvöðvi (detrusor/bladder instability, unstable bladder): ósjálfráðir blöðrusamdrættir án undirliggjandi taugasjúkdóms. Orsakir t. d. blöðrusteinar, flæðishindrun, sýking, æxlisvöxtur, en oftast óþekktar.

Ofurviðbrögð blöðruvöðva (detrusor hyperreflexia): ósjáfráðir blöðrusamdrættir sökum taugasjúkdóms. Annað hvort s. k. mænuþvagblaðra (“suprasacral”, reflex/spinal blaðra, dæmi: MS, mænuáverkar) eða ofanmænuþvagblaðra (“supraspinal” blaðra, dæmi: heilablóðfall, Parkinson sjúkd., heilaæxli, MS).

Óeðlilegt blöðruþan (abnormal bladder compliance): óeðlilegt samband rúmmáls og þrýstingsaukningar í þvagblöðru. Orsakir geta hvort heldur sem er verið taugarænar (sykursýki, MS, brjósklos) og ekki (bólgur, geislun, þvagleggur).

Lokuvöðvavanhæfni (ISD, intrinsic sphincter deficiency, sphincter incompetence/failure, type III urinary incontinence): innri vanhæfni lokuvöðvans. Slys, áverkar eftir aðgerðir og taugasjúkdómar helstu orsakir.