Snúningur á eista, eistasnúningur (torsio testis, testistorsjón)

Lykilatriði
Skurðaðgerð hefur algeran forgang ef klínískur grunur er um eistasnúning – ekki bíða.


Einkenni: Getur verið við fæðingu en algengast hjá 12-18 ára, saga <12-24 klst., oft að næturlagi, bráðaeinkenni, ógleði, uppköst, kviðverkir, eistað hástætt og hitt oft þverstætt, þvagskoðun eðlileg. Einnig getur orðið snúningur á nára- og launeistum, sem gefur staðbundnari einkenni í nára eða kviðarholi. Einkenni iðulega komið áður, oft vægari eða stóðu skemur.

Greining: Einungis þörf á ómskoðun ef greining óviss, aldrei að bíða eftir myndgreiningu, bið getur þýtt tapað eista. “Eðlileg” ómun útilokar ekki sjúkdóminn og öfugt. Snúningur verður venjulegast frá miðlínu (regla Sparks). Gjarnan þverstætt eista hinum megin (Angell´s sign), sjúka eistað helaumt og oftast uppdregið.


Myndirnar sýna snúning á kólfi (til vi.), miðmyndin drep í hæ. eista, einnig drep lengst til hægri.

Meðferð: ætíð skurðaðgerð eins fljótt og kostur er – bráðaaðgerð. Undantekning er ef sjúklingur leggst inn með “svart” eista og augljóslega orðið drep í eistanu. Ekki bíða eftir blóð- eða röntgenrannsóknum. Kalla strax á sérfræðing ef grunur er um eistasnúning. Stundum er hægt að snúa eistanu til baka við svæfingu/verkjalyfjagjöf. Hitt eistað yfirleitt fest í sömu aðgerð og hægt er að setja gervieista ef fjarlægja þarf snúningseistað sökum dreps.